laugardagur, 13. desember 2014

Uppþvottavélin.

Hæ mamma mín.

Nú sit ég og hlusta á Eivor, Dansaðu Vindur. Ég heyrði þetta lag í gær og varð strax hugsað til þín enda minnir nánast allt á þig og þú ert alltaf í huga mér. 
Sálfræðingurinn minn hafði það á orði í gær hvað ég væri heppin að eiga svona margar góðar minningar um þig og um leið og ég færi að rifja þær upp að þá kæmi ljómi í augun mín. Það er bara þannig. Sama hversu mikil tár koma að þá sést það samt í augum mínum hversu dásamleg manneskja þú varst og hvað ég á margar ógleymanlegar minningar um þig. 

Ég hef einmitt tekið mér heilu kvöldin til þess eins að safna saman minningum um þig í huganum. Á tímum fannst mér nefnilega langt að sækja þær því sorgin heltók mig og því enduðu þessi kvöld stundum í miklu svekkelsi því mér fannst ég ekki ná að grípa neina minningu því þær komu á ljóshraða, í milljóna-tali í gegnum huga minn. Minningarnar koma þegar ég er ekki að þvinga þær fram - það er ég búin að læra. 

Uppþvottavélin já. Loksins eignaðist ég eina slíka og núna þegar ég settist niður með tölvuna og ætlaði að slaka á að þá ómar uppþvottavélin í bakrunn - maður var ekkert að splæsa í neina hljóðláta, neinei það er aukaatriði. Mér varð strax hugsað til þín og þeirra skipta sem ég rölti yfir til þín með þvottabalann fullan af leirtaui til þess að fá að setja í uppþvottavél hjá þér. Jah, svona gat maður verið latur. Þú hinsvegar yptir ekki öxlum yfir því enda orðin vön minni háttsemi. 

Sakna þín mamma mín. 


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim