mánudagur, 22. desember 2014

Útskriftin.

Loksins. Já þessi dagur rann upp og var allt öðruvísi en ég hafði nokkurntíman gert mér í hugarlund. Ég dró Kjartan, Jóa, Valda og Haffa og voru þeir alla athöfnina sem var í rauninni drep leiðinleg og löng. Ég var ánægð að sjá þá þarna aftast, standandi og fúla í framan - eða svona, þeim leiddist þetta. Þeir fengu þó eina kökusneið og kleinu fyrir afrekið. 



Jói hafði það á orði að hann væri nú búinn að bíða eftir þessum degi í 4 ár og það hafi alltaf átt að vera veisla. En það var ekki hægt því það var enginn til þess að baka kökurnar. Við erum nefnilega öll hálf hjálparlaus án þín en sem betur fer hjálpumst við að og eigum góða að. Tengdafjölskyldan mín sá til þess að gera daginn ógleymanlegan og á ég þeim svo margt að þakka. Það var alveg rétt hjá þér það sem þú sagðir. Þú skyldir mig eftir í góðum höndum. 

Hugsa mikið til þín, alltaf. Þegar ég sat að bíða eftir að fá plaggið mitt og fá að setja húfuna á kollinn að þá hugsaði ég svo mikið til þín. Stundum ef ég hugsa of mikið til þín í einu, þá koma tárin svo það munaði mjóu þarna. Ég var nefnilega að hugsa að þú stæðir þarna í horninu og ég vona að það hafi verið satt. Ég sakna þín mikið og er smeyk að fara takast á við jólin. Það verður forvitnileg Bónus ferðin með Jóa á morgun. Er að reyna hugsa hvað mikið þú hefðir keypt af þessu og hinu en veit bara ekki neitt. Þú kannski laumar svarinu til mín í svefni - það væri fínt. 

Elska þig alltaf mamma mín og sakna þín sárt. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim