laugardagur, 7. nóvember 2015

Eitt ár. 52 vikur. 365 dagar.

Ég trúi þessu varla. Er í alvöru komið ár síðan ég lá þér við hlið og hélt utan um þig? Horfði á þig þar sem þú fórst að hægja á andardrætti og fór þeim fækkandi ört þarna undir lokinn. Ég hélt oft að þú værir alveg hætt að anda en þá tókstu andköf. Það var ótrúlega óþægileg tilfinning. Það var samt aldrei spurning þegar þú hafðir svo tekið þitt síðasta andartak, þá vissi ég. Þetta er búið. Ó hversu sárt ég grét. Hversu hrikalegt þetta var allt saman. Þessi þriggja vikna rússibanareið var senn á enda og við mér blasti mesta óöryggi sem ég hafði fundið. Afhverju var þetta að gerast? Mig langar ekki til þess að vera hér án mömmu. Hvernig er lífið án mömmu? Hvað geri ég nú? Vá hvað hugurinn fór á fullt. Við tók undirbúningur á útför þinni og það var eins og maður væri ekki í sínum líkama á meðan því stóð. Þvílíkt sem máttleysið var. Ég fann fyrir örvæntingu, hvað geri ég nú? Maður var umkringdur góðu fólki og þannig var haldið utan um mann en tómarúmið í hjartanu. Það sveið í magann, það vantaði svo mikið. Það vantaði allt! Hvernig gat þetta verið að gerast?
Nina, 365 dögum seinna spyr ég þess sama; Hvernig gat þetta verið að gerast? Afhverju við? Hvernig eigum við að fara að? Og allt á milli þess að sakna þín, vera sár út í þig, vita ekki hvernig maður á að reima hægri skóinn því hann flæktist á einkennilegan hátt og ég hefði í flestum tilvikum heyrt í þér. Vá hvað ég var ósjálfbjarga.
Ég var lengi vel búin að taka upp símann og farin að hringja í þig þegar ég áttaði mig á því að það væri ekki hægt. Hvaða vitleysa er þetta í mér. Google-a ég ekki bara hvernig ég á að sjóða gulrætur?? Það var ótrúlegt að sjá hvað maður var ósjálfbjarga og hversu mikið maður treysti á þig og kunnáttu þína. Í dag finn ég samt hvað ég bý við mikla hæfileika til þess einmitt að spjara mig. Maður var bara orðinn svo vanur á að gera ekkert sjálfur - þú gerðir allt! Ekki skrítið að þú hafir verið þreytt... það var mikið á þig lagt mamma mín. En ég veit að þér fannst það mikilvægt. Þér fannst mikilvægt að maður spurði þig ráða, þó við höfum nú ekki alltaf verið sammála. Þú varst samt sú eina sem "máttir" vera ósammála mér. Það er ennþá þannig í dag. Frekar erfitt svona í daglegu lífi þar sem enginn má segja neitt sem mér mislíkar. Bara þú. Bara þú mamma! Ohh ég sakna þín svo sárt.

Vildi óska þess að þú værir hér en vona þess að þú hafir það gott. Ég vona að þú fylgist með og sért ánægð með okkur. Þú passar líka upp á okkur, ég trúi ekki öðru.

Hafðu það gott mamma mín. Elska þig meira en orð fá lýst!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim