sunnudagur, 26. apríl 2015

Gróðurhúsið.

Það er eiginlega hálf ómögulegt að reyna útskýra líðan mína þessa dagana. Eða bara alla daga, hvort sem það var áður en þú fórst eða eftir. Eftir að þú fórst, hrundi veröld mín og ég hef síðan reynt að týna saman þessi agnarsmáu brot til þess að reyna pússla þeim aftur saman en ég finn að það er mikið verk eftir. Fyrir utan að mörg brotin verða aldrei endurheimt og var það vitað frá því augnabliki sem þú tókst þinn síðasta andardrátt að nú væri ófyllanlegt skarð í hjarta mínu. 
Mér finnst eins og enginn skilji mig og hvernig mér líður og það er eflaust satt - upp að vissu marki. Ég tengi samt við marga sem eru að útskýra líðan sína varðandi ástvinamissi. Þetta er bara svo hrikalega sárt. 

Garðurinn þinn er alveg eins og þú skyldir við hann. Hann er illa farinn eftir veturinn og býður bætur sínar. Þú klikkaðir aldrei hvað það varðaði að setja sumarsvipinn á fallega garðinn þinn. Það allra skrítnasta er líka það að þetta er ekki lengur garðurinn okkar. Nú býr nýtt fólk í húsinu okkar. Æskuheimilið mitt sem er hér nánast við hliðina á mér og ég sé á hverjum degi. Það virðist stundum eins og ég tengi ekkert við það. En svo koma stundir sem ég reyni að horfa ekki á það því ég finn til við það. Það eru bókstaflega líkamlegir verkir að horfa á garðinn þinn. Gróður húsið þitt. Eplatrén þín. Ljósgræni plastkassinn sem þú notaðir til að gera Guð má vita hvað, er ennþá þarna. 
Ég dauðkvíði því að þurfa fara í gegnum þetta allt núna fljótlega. Tilhugsunin um að labba inn í gróðurhúsið er eiginlega óbærileg. Getur þetta í alvöru verið? Þetta getur verið meira helvítið. 

Ég á afmæli eftir 6 daga og það er engin tilhlökkun. Fyrsta afmælið án þín. Fyrsta afmælið sem ég fæ ekki kveðju frá þér. - Ég mun samt halda andliti og fela sorgina því það skilur enginn. Það skilur enginn að ég finn alveg ólýsanlega til. Fólk segir bara; "Lífið heldur áfram....." - Já, lífið heldur áfram en það er þeim mun fjandi erfiðara að lifa því. 

Ég er búin að hafa mikla þörf til þess að tala við þig síðustu daga. Það er reyndar alla daga, hvað er ég að bulla. Ég þarf að tala við þig alla daga. Það er alltaf eitthvað sem liggur á hjarta sem mér finnst aðeins þú getað hlustað og ráðleggt. 

Og nú er bara það sem eftir er.......eftir.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim