fimmtudagur, 19. febrúar 2015

Við byggjum saman bæ í sveit.

Ég er ekki trúuð. Ég tel mig ekki vera trúaða miðað við allt sem gengið hefur á í lífi mínu (og okkar fjölskyldunnar). Ég get nefnilega ekki trúað að svona óréttlæti sé til - allt sem viðgengst í heiminum. Þú hinsvegar varst trúuð og ég skyldi aldrei hvernig þú gast haldið svona í trúnna eftir pabba og Odd. 
Það var bara núna um helgina sem ég áttaði mig á því að mig langar til þess að trúa. Ég held það sé auðveldara að trúa. Ég held að þú hafir ávallt haft trúnna þér að leiðarljósi. Með því einu að trúa því, til dæmis, að þú myndir hitta Odd aftur gaf þér von. Jafnvel frið líka. 
Ég hugsa að ef ég hefði trúnna til að leiða mig áfram núna og óvissan væri ekki svona mikil um það hvað tekur við, hvar þú ert og hvernig þú hefur það að þá myndi ég finna fyrir frið innra með mér. Ég hugsa á hverjum degi hvar þú sért.... Hvort þú sért, hvað þú ert að gera og fyrst og fremst hvort þér líði vel. 

Á meðan reyni ég að plata mig með þeirri tilhugsun að þið fallegu englarnir mínir séuð öll saman og hafið það alveg dásamlegt. Kannski mun ég trúa því fyrir alvöru einn daginn. Ég vona það. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim