fimmtudagur, 8. janúar 2015

Janúardepurð.

Hæ mamma mín.

Er búin að hugsa í marga daga núna að ég ætli að fara skrifa til þín enda margt búið að vera í gangi og þú varst auðvitað alltaf sú fyrsta sem ég hringdi í þegar eitthvað nýtt var að gerast. Núna sit ég við tölvuna og er alveg tóm og eina sem rennur í gegnum huga minn er samverustundir með þér. Ef ég hugsa of mikið um að þú sért farin að þá verð ég hrædd. Þetta er ótrúlega skrítin tilfinning því auðvitað veit ég að þú sért ekki hér og munir aldrei vera það en ef ég fer út í smáatriðin hvað það varðar að þá fæ ég hnút í magann. Það er allt lífið eftir mamma, án þín. Eins þrjósk og ég nú er að þá á ég erfitt með að ná sáttum við þá staðreynd. 

Fór til Dóru og Böðvars um daginn. Það var alveg rosalega gott að hitta einhvern sem þekkti okkur vel og hefur verið partur af okkar lífi í mörg ár. Þar töluðum við um allt á milli himins og jarðar en þó aðallega þessa óyfirstíganlegu sorg og hvernig það er varðandi þau sár sem þau skilja eftir sig. Þessi sár eru aldrei að fara gróa og munu alltaf vera partur af manni. Þessvegna er svo skrítið þegar einhver segir við mann að tíminn lækni öll sár því það á ekki við í þessu tilviki. Ég mun finna til í mínu "sári" það sem eftir lifir. Til dæmis þegar ég gifti mig, mun ég auðvitað hugsa til þín og hversu sárt ég sakna þín og vildi óska að þú værir viðstödd brúðkaup mitt. Þar mun ég finna vel fyrir mínu sári þó að ég sé kannski ekki að fara gifta mig fyrr en eftir 10 ár. - Verður örugglega eftir svona 20 ár, þegar ég fer á skeljarnar og segi þessum borgargutta að nú sé kominn tími á þetta. :) 
En nóg með það. Það sem er svo erfitt við þetta er að maður veit að þessi söknuður mun aldrei hverfa. Þetta er ekki að fara líða hjá. 

Ég vona svo innilega að þú sért á góðum stað. Ég reyni að trúa því á hverjum degi og ég verð flínkari með hverjum deginum. Það getur bara ekki annað komið til greina að svona góð manneskja eins og þú sért ekki á góðum stað. Því vil ég trúa. 

Andrea Ósk er byrjuð í aðlögun í leikskólanum og það kom mér hálfpartinn á óvart hversu erfitt það hefur verið fyrir mig. Það er búið að gera mig meyra og viðkvæma því ég sakna þín og finnst erfitt að taka mín fyrstu skref í þessum "aðskilnaði" við hana. Það er líka svo skrítið að nánast hvað sem er hér á Laugarvatni minnir á þig. Hvort sem það eru manneskjur, staðirnir eða bara veðrið. Ég vona að tilfinningin verði léttbærari fyrir mig að vera hér því eins og staðan er núna er þetta þung barátta í hvert skipti sem ég stíg út um dyrnar og sé húsið þitt. Húsið okkar. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að búa nánast í garðinum hjá þér í rúm tvö ár. Ég held fast í okkar ferðalag sem hófst þá því þar eru okkar síðustu stundir saman og þú kenndir mér á svo marga vegu hvernig á að tækla lífið. Ég er þakklát öllu sem viðkemur þér og er svo stolt af því að vera dóttir þín. 

Elska þig og sakna elsku yndislega mamma mín. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim