föstudagur, 30. janúar 2015

Hvar ertu?

Ég hugsa svo ótal oft um það hvar þú sért. Ef það er eitthvað þarna handan við, sem ég vona svo heitt.

Það er svo margt sem mig langar til þess að segja þér. Mér finnst eins og ég sé komin á einhverja endastöð núna því "staðurinn" sem ég hef notað til þess að setja allar mínar hugsanir til þín í, er að verða ansi þröngur. Þetta er barátta á hverjum degi og það er svo erfitt að skoða myndir af þér því það stingur í hjartað. Ég vildi óska þess að ég gæti heyrt þig hlæja einu sinni enn. Eða bara eitt faðmlag. Eitt símtal... Ég hugsa alltaf fyrsta sekúndubrotið þegar síminn hringir að það sért þú að hringja. Þannig þú getur rétt ímyndað þér svekkelsið í hvert skipti sem síminn hringir. 

Ég fékk góða spurningu um daginn sem var í stuttu máli hvort ég finndi ekki fyrir þér ("hér inni"/hjartanu)? Ég hef aldrei fengið þessa spurningu áður og fékk því að létta af mér miklu fargi því ég gat loksins sett fingurinn á það sem hefur verið svo erfitt. Ég finn ekki fyrir þér. Ég vil finna fyrir þér og bið um það á hverjum degi. Ég hugsa nefnilega að ef ég finndi fyrir þér að þá væri meiri ró innra með mér. Hvar ertu? Ég þarf alveg afskaplega á þér að halda og ef þú gætir bara svona rétt látið mig finna fyrir því, yrði sársaukinn aðeins bærari. 
Ég vona á hverju kvöldi þegar ég leggst upp í rúm að ég muni dreyma fallegan draum um þig - ég held áfram að vona og bíð eftir fallegu draumunum með þér mamma mín. Ég sakna þín svo svo svo svo mikið og það hefur verið ansi erfitt að skrifa til þín upp á síðkastið. Hvenær verður þetta bærilegra?

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim