þriðjudagur, 24. mars 2015

Vonlausi dagurinn.

Í dag er vonlausi dagurinn. Númer svona 100 ca en það er aukaatriði.
Á svona dögum vantar mig þig. Alla daga vantar mig þig. Bráðum verða það fimm mánuðir síðan þú fórst. Ég trúi því varla. Ég trúi því varla að ég standi ennþá í lappirnar því tilhugsunin um líf án þín var ekki í myndinni. Svo er maður bara neyddur til þess að halda áfram og hugsa ekki of mikið til baka. Ég get ekki. Stundum get ég bara ekki. Í dag er þannig dagur.

Ég sakna þín mamma og þetta verður ekkert auðveldara. Plís segðu mér að þetta verði bærilegra. Á dögum sem þessum, þá á ég erfitt með að hugsa til framtíðarinnar.

Í dag er mesta gluggaveður sem Ísland getur boðið upp á. Það minnir mig á þig og vorið. Eðlilega væri ég að rölta yfir til þín og þú værir í gróðurhúsinu þínu að slaka á - þannig var það alltaf þegar sólin skein. Sama hvernig þér leið. Eðlilega segi ég, því jú auðvitað er það eðlilegast. Þetta er ekki eðlilegt svona. Það er ranglátt að ég hafi þig ekki hér og ég mun eflaust allt mitt líf finnast það rangt og ósanngjarnt að þú varst tekin frá mér.

Andrea Ósk er orðin svo stór og ég óska þess á hverjum degi að þú gætir séð hana. Hún er svo skemmtileg. Það er alveg hreint forréttindi að fá að umgangast hana dag hvern og ég þakka fyrir að ég hafi fengið að eiga hana til þess að koma mér áfram. Hún er svo dugleg og svo þrjósk og minnir mig svo á sjálfa mig að mörgu leyti. Hún verður sko alvöru kjarnakona eins og amma Ólöf. Það stingur sárt að hún skuli ekki hafa þig hjá sér.

Lífið er erfitt án þín mamma.

Ég elska þig.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim