föstudagur, 6. mars 2015

Mín besta og mesta.

Þú varst í mínum augum það allra besta. Ég var svo stolt að vera dóttir þín en jafnframt svo óendanlega þakklát fyrir það hversu góðar vinkonur við vorum. Þú varst mín besta vinkona, þú varst mér mest. 
Ég brotnaði niður hjá sálfræðingnum á miðvikudaginn því ég sakna þín svo að ég fann í hjartanu að ég var að ganga í gegnum svo erfiða göngu að ég þurfti á þér að halda. Undir öllum öðrum kringumstæðum hefði ég leitað til þín, fengið huggun hjá þér og þú þerrað tár mín. Hvar finn ég staðgengil þinn? Fyrir utan að ég myndi aldrei vilja finna staðgengil fyrir þig að þá held ég að það sé ómögulegt. Það hefði enginn getað gert hlutina eins og þú gerðir þá. Það hefði enginn getað gert mig jafn örugga og þú gerðir. Þú varst mín besta og mesta og án þín er það besta og mesta horfið. Ég hugsa á hverjum degi að þetta hljóti nú að verða bærilegra á morgun en sá tími er ekki kominn. Sá tími virðist vera óralangt í burtu enda get ég ekki með nokkru móti hugsað mér að hlutirnir verði einhverntíman léttari þegar þú ert farin. 

Þegar það kemur upp svo ákveðið í huga minn sú fáránlega staðreynd, já fáránleg er hún. Þú dáin? Ha... getur þetta í alvöru komið fyrir? Þú áttir að sigrast á þessu. Eða allavega lifa með þessu mun lengur. - Þessi hugsun, sem tekur um nokkur sekúndubrot að hugsa og það kemur brunatilfinning í hjartað. Eða hjartað? magann, einhversstaðar innra með mér fæ ég brunatilfinningu og hún varir mun lengur en í nokkur sekúndubrot eins og hugsunin. Hún getur stundum fylgt mér út í nóttina og ég kvíði því að vakna. Þú ert það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna, og það síðasta sem ég hugsa um þegar ég fer að sofa. Það var þannig áður en þú fórst nema þá gat ég fengið svör. Þá gat ég sent þér sms og spurt þig hvernig þú hefðir það, eða hringt og heyrt röddina þína. Oh mamma, ég sakna þín svo. 

Takk fyrir að vera mín besta og mín mesta í 24 ár. Vildi óska þess að þau hefðu verið miklu fleiri árin okkar saman. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim