mánudagur, 23. febrúar 2015

Bakslag.

Það er búið að vera erfitt upp á síðkastið. Eða öllu heldur, erfiðara en venjulega. Ég vildi eiginlega ekki trúa því og var í hálfgerðri afneitun því það gæti nú varla verið að hlutirnir væru orðnir erfiðari núna en þeir hafa verið. Ég var í stöðugri togstreytu við sjálfa mig og átti aðeins of margar lægðir. Ég óttaðist þessa líðan því hún var ekki góð fyrir, hvað þá ef hún var að fara versna. 
Ég hitti góðan markþjálfa sem var lífsreynsa út af fyrir sig en síðasti tíminn hjá okkur fór einmitt allt öðruvísi en ég hafði hugsað mér. Þar gat hann sýnt mér hlutina í réttu ljósi. Núna fyrst var þetta að verða erfitt. Núna fyrst varð ég að finna svona allsvakalega fyrir raunveruleikanum án þín. Núna fann ég hvað hversdagsleikinn var búinn að grípa alla í kringum mig föstum greipum og mér fannst ég standa eftir ein. Mér finnst ég standa eftir ein. Því auðvitað get ég ekki ætlast til þess af neinum að staldra við, eins og ég er að gera, og finna til með mér. Þetta er tímafrekt, sárt og erfitt verkefni sem ég reyni stundum að flýja en ég finn að það hefur ávallt yfirhöndina. 
Ég er alveg ofboðslega þakklát fyrir þennan markþjálfa og sérstaklega fyrir þennan síðasta tíma okkar. Ég náði tengingu við svo margt að það varð vonarglæta þarna lengst í burtu. Það var eins og þungu fargi hefði verið létt af öxlum mínum og ég var eins berskjölduð og ég gat; ég grét og grét. 

Þegar ég hugsa til þín að þá finn ég hvernig tárin fylla augu mín og ég fæ kökk í hálsinn. Suma daga á ég erfitt með að hugsa til þín því þá myndi ég kannski bara gráta allan daginn og ég veit að það er ekki í boði. Ég græt ekki fyrir framan Andreu Ósk, ekki nema örfá tár hér og þar en ég vil ekki að hún sjái mig svona sorgmædda. 
Það eru ljós í enda þessarar göngu hér en stundum er svo hrikalega dimmt að ég get ekki fótað mig. Ég vildi óska þess að þú værir hér elsku besta og hugrakka mamma mín. 

Ég er umkringd fólki en ég finn samt fyrir einmannleika. Ég er einmanna án þín og mér líður eins og það muni alltaf vera. Það hræðir mig. 

Laugarvatn er ekki eins án þín. 
Laugarvatn verður aldrei eins án þín. 

Elska þig að eilífu. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim