miðvikudagur, 11. mars 2015

Lubbi mættur?

Það var bara fyrir tilviljun að ég komst að því í dag að Lubbi væri farinn. Það var sárt. 
Þegar ég hugsa til baka að þá held ég að ég hafi hugsað til hans á hverjum degi frá því ég sá hann síðast. Elsku Lubbi, oh ég vona að hann hafi fundið þig mamma því þú varst hans húsbóndi. Ég treysti mér einfaldlega ekki til þess að kíkja á hann eftir að þú fórst því ég vissi að það yrði of erfitt. Það er ótrúlegt hvað þessi dýr ná stórum sess í hjarta manns. Eins pirrandi og hann gat verið blessaður. :) 


Án efa einn fallegasti hundur sem til var. Sjá þessi augu. Ég á bara erfitt með mig þegar ég horfi á myndir af honum. 

Það var rétt ákvörðun að eignast hann. Ég var svo fegin þegar þið ákváðuð að fá ykkur hann því þú þurftir félagsskap og hundur getur svo sannarlega veitt hann upp að vissu marki. Það var þó best þegar hann náði að draga þig út í göngutúra enda það jú tilgangurinn með þessu öllu saman. Honum þótti þó best að liggja við fæturnar manns allan liðlangan daginn og láta mann finna fyrir sér. 
Ég mun aldrei gleyma því þegar ég var á mínum fyrstu og hálf óbærilegu vikum meðgöngunnar þar sem ég gat ekkert borðað því ógleðin var í hámarki. Ég náði þó að trítla yfir til þín þegar Kjartan fór í vinnuna til þess eins að liggja upp í rúmi í gamla herberginu mínu, allan daginn - dormandi í gegnum ógleðina í hálgerðu móki og alltaf var Lubbi á gólfinu við rúmið. Ef það svo gerðist eitthvað spennandi frammi, eða hann heyrði í einhverjum úti að þá var hann fljótur á fætur að athuga með það en það leið ekki að löngu þar til hann var kominn aftur við rúmstokkinn. Það gerði ógleðis-martröðin örlítið ljúfari. Því ljúfur var hann og ég er svo glöð að Andrea Ósk hafi aðeins fengið að kynnast honum. Hún hafði gaman af því að rífa aðeins í hann og fékk þá aðeins smekk af því hvernig það er að umgangast dýr og virðist hún ekkert vera hrædd við þau í dag. 

Ég meina, hver gat sagt nei við þetta fallega skott í auglýsingu í Sunnlenska? Mesti bangsi í heimi. 

Hlýjar kveðjur til þín mamma mín. Ég vona svo heitt og innilega að þú sért á góðum stað og að Lubbi hafi ratað til þín. 



0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim