fimmtudagur, 16. apríl 2015

Það góða getur ekki verið án þess slæma.

Í dag fékk ég að gefa nýfæddum kálf að drekka. Þetta var sko alvöru sveita - ég hugsaði allan tímann til þín. Ég hlakkaði nefnilega svo til að koma heim og segja þér frá þessu og hvað þetta var æðislegt. Viðbrögðin þín hefðu ekki leynt sér enda var þetta sko lífið, að gefa nýfæddum kálfinum mjólk og í leiðinni að kenna honum að drekka úr fötu með túttu á. Þetta var alveg magnað. 
Ég sakna þín.

Ég finn að það er stór alda að fara koma. Þetta kemur nefnilega í öldum og það er farið að lengjast á milli þeirra en þær koma þó alltaf jafn ákveðið þegar þeirra tími er. Ég hræðist þessar öldur. Tilfinningin er nefnilega þannig að söknuður kemur í öldum og á verstu tímunum er eins og maður sé að drukkna. 

Amma skrifaði svo fallega um þig í dag þegar hún sagði að hún væri þakklát fyrir þann tíma sem þau fengu með þér. Ég á ennþá mjög erfitt með að sjá það góða í því sem var því alltaf kemur upp í huga mér að við áttum skilið svo miklu fleiri ár. Fyrir mér var líf mitt að byrja. Ég var í fyrsta skipti búin að vera fyllilega full af lífi í um ár, eða þegar Andrea Ósk fæddist. Ég fékk ár með þér sem manneskjan sem ég hef alltaf viljað vera. Mér var alltaf ætlað að verða móðir og verður það ljósara með hverjum deginum. Ég mun reyna mitt allra besta til þess að feta í fótspor þín. Þú varst það allra besta. 

Ég vona að við förum að hittast í draumaheimi. Getum við mamma? Við skulum eiga góðar stundir saman og ég vil muna drauminn þegar ég vakna. Gerðu það mamma, ég sakna þín svo sárt. 


Ég elska þig. 

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim