sunnudagur, 6. desember 2015

Sjálfsvorkun í hámarki.

Það er náttúrulega ekki frásögu færandi að vera ræða það hversu mikill bjáni maður getur stundum verið. Yfirleitt alltaf er ég langt frá því að detta í þennan gír, hugsa frekar hversu lánsöm ég er að eiga litlu óskina mín, vera heilsuhraust og eiga ofan í mig og á. EN stundum. Já stundum er núna. Þá finn ég alveg ofboðslega til með sjálfri mér. Er það eðlilegt? Þegar jólin nálgast og mér finnst ég stundum standa ein, gjörsamlega yfirgefin og enginn bíðandi eftir því að halda jólin með mér. Engar hefðir sem ég þarf að gera til þess að komast í "gírinn" því allar hefðirnar voru gerðar með þér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að uppfylla þær án þín. Þarf ég þá að búa til nýjar hefðir? Ég þarf að vera bjartsýnari hvað varðar jólin því núna þarf ég að vera mamma sem gerir ógleymanleg jól fyrir Andreu Ósk. Það er bara heljarinnar hlutverk. Hvernig fórst þú að?

Æj mamma. Ég þarf svo mikið að tala við þig. Ég þarf faðmlag og huggun. Ég þarf að hlæja og fíflast með þér - við vorum svo miklir púkar. Enda ekkert skemmtilegra en að sjá þig í hláturskasti. Ég reyni mitt besta alla daga að hlæja, hlæja bæði fyrir mig og þig því það fyllir mig gleði en stundum get ég ekki meir. Núna er ég þreytt. Sef og sef og þá vitum við nú hvað gerist. Svefnpurkan má ekki sofa of mikið. Þrái það heitast að dreyma fallegan draum um þig en hann hefur ekki komið ennþá.

Sólin er að setjast núna klukkan 14:26 og mér finnst ég hafa sóað deginum. Nú þarf ég að rífa mig upp og fara gera eitthvað sem gefur lífinu lit.

Vildi bara senda þér línu fyrst.

Elska þig, alltaf!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim