þriðjudagur, 29. janúar 2019

Nýtt ferðalag

Nú hef ég hafið "nýtt" ferðalag ef svo má að orði komast. Ég er farin að hitta sálfræðing sem ég finn að mun hjálpa mér mikið með mína baráttu sem er í gangi þessar vikurnar.

Eins og alltaf þegar maður fer til nýs sálfræðings þarf maður að rekja tilbaka hvað hefur drifið á daga manns. Allt eins aftur og hægt er, í raun. Enda hef ég lært það í mínu sálfræði námi núna hversu mikilvæg fyrstu árin hjá börnum eru. Þau leggja grunninn að því hvernig við tæklum hlutina í lífinu. Fyrstu tvö ár í lífi barns, eru mikilvægust þegar kemur að allskyns þroska og Guðrún geðlæknir sagði eitt sinn við mig að það væri sko alveg á hreinu að ég hafi átt góð fyrstu tvö ár lífs míns. Ég væri það heilsteypt í dag, og í raun með ótrúlega færni til þess að tjá tilfinningar mínar og reyna gera þeim skil. Eftir allt sem hefur komið fyrir að þá finnst henni ég standa mig vel. Ég veit ekki, jú kannski? Hvernig sem á þetta er litið er ég alltaf í rosalega sorglegum aðstæðum. Það er þó mitt að reyna gera líf mitt eins gott og það getur orðið til þess að gera þennan óbærilega missi örlítið skárri. En hvað um það.... Ég var semsagt að rifja upp mín uppvaxtarár og fór að tala um hluti sem ég hafði aldrei opnað mig áður um. Ekki vegna þess að ég þorði því ekki, eða vildi ekki að neinn vissi, heldur frekar vegna þess að ég áttaði mig ekki á því hversu mikil áhrif þetta hafði á líf mitt. Uppvaxtarár mín eru því miður ekki góð í minningunni, né voru þau góð. Auðvitað voru góðar stundir og sem betur fer hugsa ég oftar en ekki um þær. En margt var slæmt, margt sem þurfti ekki að vera svona slæmt og ef ég fer út í þessar pælingar að þá verð ég einfaldlega reið. Sem fullorðin manneskja í dag, sem foreldri, hef ég séð hversu mikið fullorðið fólk hefur á börn. Jafnvel þó þetta fullorðna fólk tengist barninu ef til vill ekki neitt. Kurteisi og góð framkoma er svo mikilvæg og ekki síður við börn. Börn skilja ekki að slæm framkoma geti einfaldlega stafað af vanlíðan af hálfu manneskjunnar sem er svo hranaleg í framkomu að barnið heldur að það hafi gert eitthvað rangt. Lífið í litla þorpinu okkar einkenndist af þessu, að mér finnst. Slæmri framkomu af hálfu fullorðna fólksins og ég finn nístandi stinginn í hjartanu þegar ég hugsa um hvernig litið var á mann. Hvernig hugsað var um mann og okkur fjölskylduna og hvernig var komið fram við mann. Við hefðum einmitt átt að fá ennþá meiri ást og umhyggju frá náunganum - því þetta fólk "vorkenndi" en jafnframt vildi ekkert með okkur hafa. Grunnskólaárin mín og menntaskólaárin mín voru hræðileg. Kennarar spiluðu stórt hlutverk þar inn í. Enda hlýtur að vera ástæða fyrir því afhverju það eru þessir nokkru einstöku kennarar sem urðu eftir í huga mér fyrir það eitt að hafa verið mér góð - því allir hinir voru það ekki.
Ég trúi því að fólk hafi haldið að það yrði ekkert úr mér. Gæti varla gerst þar sem ég átti nú bara mömmu, sem var einstæð mamma með fjögur börn og vann baki brotnu til þess að eiga í okkur og á. Sem dugði oft ekki til. En ég er sönnun þess í dag að ég er ef til vill heilsteyptari manneskja en þær sem "lofuðu góðu" þegar við vorum börn. Ég lifi reglusömu lífi, er heiðarleg, í námi og á bjarta framtíð framundan. Ég finn að þeir sem þekkja mig og elska, geri það af alvöru - vegna þess að ég reyni að vera eins góð manneskja og ég get og gef af mér eins og ég get. Ég verð þó óneitanlega reið fyrir hönd sjálfs míns sem barn, að hafa þurft að sæta svona framkomu af hálfu fullorðinna sem gerðu sér auðvitað enga grein fyrir framkomu sinni. Framkomu sem mun alltaf fylgja mér. Ég myndi aldrei vilja að einhver myndi koma svona fram við dóttur mína. Ég ætti því að virða það að koma fram við önnur börn eins og ég vil að aðrir komi fram við mitt barn. Sýna þeim kurteisi, brosa til þeirra og (sama hvernig þau líta út) - horfa á þau sem eitthvað sem verður stórkostlegt í framtíðinni. Því það er ekkert í útliti þeirra, eða lifnaðarháttum - fjölskyldusögu, sem ætti að bitna á þeim og hvernig við nálgumst þau.

Hugur minn er hjá þeim börnum sem eiga um sárt að binda. Hjá þeim sem búa við erfiðar heimilisaðstæður, fá ekki allt sem öll hin börnin fá, eru á einhvern hátt - frábrugðin "norminu" því það er bara ótrúlega erfitt og þú veist það alveg þó þú sért barn. Elsku barn, þó lífið sé erfitt að þá verður það betra........ þú getur orðið allt sem þú vilt. Það ætla ég mér allavega :)


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim