fimmtudagur, 22. september 2016

Æj mamma mín

Hvenær verður þetta betra? Ég get ekki meira. Ég er meira að segja svo barnaleg að spyrja þig bara hvort þú getir ekki komið aftur?
Þegar ég varð unglingur og gat í raun og veru tengt tilfinningarnar mínar við hvað væri að, þá var það einfalt; það vantaði bút í hjartað mitt sem hafði tapast þegar pabbi og Oddur fóru. Stórt tómarúm sem varð þegar ég var aðeins 5 ára en gerði mér ekki grein fyrir fyrr en ég var langleiðina komin á fullorðinsárin. Fyrst þegar ég fór að hitta sálfræðing og ræða hvað það væri sem væri að angra mig. Einfalt, sorgin hafði angrað mig ár eftir ár og það var ekkert hægt að gera. Ég leitaði og leitaði og reyndi eftir fremsta megni að gera lífið bærilegra á einhvern hátt en fann aldrei varanlega lausn. Svona minnist ég æsku minnar, gífurlegt tómarúm í hjartanu og fannst ég einhvernveginn alltaf nokkrum skrefum fyrir aftan alla krakkana sem ég ólst upp með á Laugarvatni - fylgdist með í fjarska þegar þau fóru með foreldrum sínum í frí, eða gerðu eitthvað sem við gerðum ekki. Jafnvel þó við gerðum það að þá var það ekki eins í mínum huga því ég átti bara eitt foreldri.
En með árunum fór ég að sætta mig við þetta. Pabbi var farinn, ég vissi að hann kæmi ekki aftur og ég þyrfti að gera gott úr því sem var. Heppin var ég að mér var úthlutað mömmu sem var sú allra besta. Hún hafði þó sína djöfla að draga og höfðu oft slæm áhrif á mig en mikið sem ég dáði og dýrkaði mömmu. Mamma varð mín að öllu leyti, hún kom í stað föðurs og átti því að vera 100% fullkomin í bæði hlutverk og í minningunni ertu það. Ég brosi þegar ég hugsa til baka hversu mögnuð þú varst í öllum þínum hlutverkum. Sjálfstæðin uppmáluð enda orðin vön að treysta bara á sjálfa þig. Þú varst flottust og klárust og fallegust og svo ótrúlega skemmtileg. Þú getur því ímyndað þér skarðið sem varð í hjarta mínu þegar þú fórst..... þú nefnilega varst margar manneskjur í mínum huga. Foreldrið mitt sem fyllti spor tveggja einstaklinga, mömmu og pabba. Mín besta vinkona, persónulegur ráðgjafi og sú sem kippti mér niður á jörðina þegar ég var komin of hátt. Hvernig er hægt að hlúa að svo stóru sári sem situr nú á sálu minni og hjarta og ég get ekki með nokkru móti lagað. Ég get ekki! Ég geeeeeeeeeet ekki mamma. Oft finnst mér eins og ég sé að fá stresskast því ég geri mér grein fyrir því að þú sért í alvöru farin og ég stend eftir ein. Afhverju líður mér eins og ég sé ein? Ég reyni oft að kenna því um að Andrea Ósk er ekki hjá mér en sannleikurinn er samt sá að þegar hún er hjá mér að þá kemur þetta tómarúm oft af fullu afli. Finnst ég ekki geta boðið henni neitt nema mig og er svo hrædd um að eina sem hún þrái er eins og ég, 7 ára gömul, fjölskyldu. Afhverju getur fjölskylda ekki samanstaðið af mér og henni og ég verið fyllilega sátt? Ég þarf að finna þennan frið innra með mér. Náðir þú því eftir pabba og Odd? Ég veit að trúin hjálpaði þér að mörgu leyti en ég veit ekki hvað ég get gert.
Ég er ekki ein. Mér við hlið stendur yndislegur maður sem elskar mig þrátt fyrir alla mína galla og ókosti. Sem reynir eftir fremsta megni að stappa í mig stálinu á meðan ég ýti honum jafn óðum frá mér. Hver getur elskað mig? Hann er án efa fallegasta manneskja sem ég hef fengið þann heiður að kynnast. Ert þú á bakvið þetta mamma? Ég er svo oft búin að biðja þig um hjálp og velti því oft fyrir mér hvort þú sért að því á einhvern hátt. Það færi þá algjörlega gegn því sem þú trúðir, að það sem ég hafði var gott og þú hefðir sko engar áhyggjur af mér því ég væri í svo góðum höndum. Þú hefur kannski séð það eftir að þú fórst að ég var sífellt að leita. Ég veit ekki að hverju eða af hverjum en leiðir okkar lágu saman og ég hef upplifað einar mögnuðustu tilfinningar lífs míns. Svo fallegt hjarta og sál sem er svo tilbúinn að gera allt fyrir mig. Ég hef aldrei á minni ævi haft svona manneskju mér við hlið og oft finnst mér ég ekki kunna að meta það. Ég er hrædd og á stundum sem þessum þegar tárin hætta ekki að renna að þá er allt ómögulegt. Ég get þetta ekki án þín. Þetta er svo sárt mamma. Afhverju við? Afhverju þú?
Viltu hjálpa mér mamma? Gerðu það..... ég þarf að finna frið innra með mér. Ég þarf að finna fyrir ró sem endist lengur en í einn dag. Ég þarf öryggi. Ég verð að trúa því að þið pabbi og Oddur getið hjálpað mér. Hver er annars tilgangurinn með þessu? Ef við missum ykkur héðan, þá hljótið þið að vera verndarenglar þarna hiinum megin.


Gerðu það mamma.... orkan mín er búin.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim