mánudagur, 1. október 2018

Að tala við þig hér eða í huganum.

Hæ mamma

Það er einhvernveginn öðruvísi að skrifa til þín hér en að halda endalaust áfram samræðunum í hausnum á mér.
Þegar ég hugsa til þín að þá kemur það fyrsta upp í huga minn "Ég elska þig". Ég vona að ég hafi sagt það nógu oft. Ég held þú hafir allavega vitað það.
Takk mamma fyrir allt. Þetta hættir ekkert að vera erfitt. Núna ætlaði ég til dæmis bara að senda þér nokkrar línur en augun fyllast og kökkurinn er mættur. Hvernig getur þetta verið að gerast - ég að tala við þig en þú ekki hér. Nú eru að verða komin 4 ár af því. Eintali við sjálfa mig við þig við mig við okkur......... þetta er svo ósanngjarnt. Svo sárt.

Ég elska þig mamma og ég sakna þín svo ólýsanlega sárt.

Mikið sem ég óska þess að þú vakir yfir okkur. Að þú sjáir okkur og að þið pabbi og Oddur séuð stolt að fylgjast með. Ég vona samt að þið sjáið ekki þetta erfiða. Það er alveg örugglega erfitt fyrir ykkur ef þið yrðuð vitni af því. Ég er að reyna, reyna svo mikið.

Amma sagði nefnilega að ef maður fer áhyggjufullur að sofa að þá yrði það mjög erfitt fyrir fólkið okkar þarna hinum megin sem er að fylgjast með okkur.



Það er falleg hugsun að hugsa um þig. Þú varst svo falleg og skemmtileg :) æj mamma ég sakna þín. Verður hjartað mitt brotið að eilífu?

Það kemur reglulega upp í huga minn þegar ég var að vinna á Droplaugarstöðum og ein hjúkrunarkonan sagði við mig að hún hefði misst mömmu sína úr krabbameini, í framhaldinu af því að ég sagði henni að þú værir að glíma við krabbamein. Þessi hjúkrunarkona var fullorðin, kannski um fimmtugt og hún sagði; "ég mun aldrei jafna mig".............. þarna voru liðin mörg ár. Hún var ung kona eins og ég þegar mamma hennar kvaddi. Þetta er einmitt það sem ég hugsa "ég mun aldrei jafna mig". Ég mun aldrei jafna mig á þeirri lífreynslu að fylgja þér síðasta spölin. Allir þeir erfiðu dagar sem þú áttir og geta ekki gert neitt til að linna þjáningu þína. Allir dagarnir sem ég var ekki með þér verða að eilífu í mikilli eftirsjá. Öll faðmlögin sem við hefðum getað átt. úff ég ætla stoppa núna. Þarf mikið að læra undir próf og þurfti bara að taka smá pásu og skrifa línu til þín.

Ég elska ykkur. Vonandi hvílið þið öll í friði elsku hjörtun mín, fallegu englarnir mínir.


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim