mánudagur, 17. nóvember 2014

Minningargrein.

Minningargrein birt í morgunblaðinu laugardaginn 15. nóvember 2014. 


Elsku besta mamma mín. Ég sakna þín svo sárt. Ég veit ekki hvernig ég á að mér að vera því núna er risastórt skarð í tilveru minni og allt er breytt. Þú varst svo ofboðslega stór partur í mínu lífi og ég veit ekki hvernig ég á að læra að lifa án þín. Ég vil ekki lifa án þín.
Þú varst besta mamma sem nokkur gat óskað sér. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir okkar lífsins ferðalag saman, þó það hafi verið of stutt. Það var alltaf ég og þú gegn heiminum, ég og þú mamma mín. Við gengum í gegnum margt saman, allt sem ég mun varðveita í hjarta mínu um ókomna tíð og reyna að hugga mig við á erfiðum tímum. Það sem fyllir mig ofboðslega miklu þakklæti er að þú hafir getað verið viðstödd fæðingu Andreu minnar, þrátt fyrir þín veikindi. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þetta fyrsta ár sem þú gast verið með okkur og ávallt verið til halds og trausts. Þú og Andrea Ósk voruð yndislegar saman og það stingur mest að hún fái ekki tækifæri til þess að kynnast þér og hafa þig sér við hlið. Ég mun tala um þig alla daga og sjá til þess að þú verðir alltaf partur af hennar lífi.
Ég mun aldrei ná að skilja hversu magnaður lífsvilji þinn var, hversu ákveðin og bjartsýn þú varst alltaf þrátt fyrir allt mótlætið. Þú sýndir okkur hinum að maður á aldrei að gefast upp og ég ætla að lifa með það að leiðarljósi. Þú verður alltaf í huga mínum og ég mun halda áfram að gera mitt besta til þess að gera þig stolta, því ég veit að þú ert að fylgjast með.
Núna er tekinn við nýr kafli. Nýr kafli þar sem þér líður vel, þú finnur hvergi til, ert full af orku og lífsgleði og þú munt loksins hitta Odd þinn. Ég veit að allir fallegu englarnir mínir tóku vel á móti þér. Núna er það bara rjómaterta í öll mál mamma mín, og örugglega heitt súkkulaði ef ég þekki þig rétt. 
Takk fyrir allt elsku mamma. Ég mun elska þig að eilífu og hugsa til þín alla daga. Ég mun líka gráta mikið, finna til og sakna þín ólýsanlega en ég mun gera mitt besta til þess að læra á lífið upp á nýtt án þín. Eins og þú sagðir að þá er ég umkringd svo góðu fólki að þú hefðir hreint engar áhyggjur af mér. Það verður þó alltaf eitthvað sem vantar þegar þú ert farin. 

Skilaðu kveðju til pabba og Odds. Ég veit að þið hafið það gott þarna uppi. 

Sjáumst seinna mamma mín. 


Signý Eva og fjölskylda. 

laugardagur, 8. nóvember 2014

Elsku mamma


Ég sakna þín svo sárt að mig verkjar.