þriðjudagur, 24. mars 2015

Vonlausi dagurinn.

Í dag er vonlausi dagurinn. Númer svona 100 ca en það er aukaatriði.
Á svona dögum vantar mig þig. Alla daga vantar mig þig. Bráðum verða það fimm mánuðir síðan þú fórst. Ég trúi því varla. Ég trúi því varla að ég standi ennþá í lappirnar því tilhugsunin um líf án þín var ekki í myndinni. Svo er maður bara neyddur til þess að halda áfram og hugsa ekki of mikið til baka. Ég get ekki. Stundum get ég bara ekki. Í dag er þannig dagur.

Ég sakna þín mamma og þetta verður ekkert auðveldara. Plís segðu mér að þetta verði bærilegra. Á dögum sem þessum, þá á ég erfitt með að hugsa til framtíðarinnar.

Í dag er mesta gluggaveður sem Ísland getur boðið upp á. Það minnir mig á þig og vorið. Eðlilega væri ég að rölta yfir til þín og þú værir í gróðurhúsinu þínu að slaka á - þannig var það alltaf þegar sólin skein. Sama hvernig þér leið. Eðlilega segi ég, því jú auðvitað er það eðlilegast. Þetta er ekki eðlilegt svona. Það er ranglátt að ég hafi þig ekki hér og ég mun eflaust allt mitt líf finnast það rangt og ósanngjarnt að þú varst tekin frá mér.

Andrea Ósk er orðin svo stór og ég óska þess á hverjum degi að þú gætir séð hana. Hún er svo skemmtileg. Það er alveg hreint forréttindi að fá að umgangast hana dag hvern og ég þakka fyrir að ég hafi fengið að eiga hana til þess að koma mér áfram. Hún er svo dugleg og svo þrjósk og minnir mig svo á sjálfa mig að mörgu leyti. Hún verður sko alvöru kjarnakona eins og amma Ólöf. Það stingur sárt að hún skuli ekki hafa þig hjá sér.

Lífið er erfitt án þín mamma.

Ég elska þig.

miðvikudagur, 11. mars 2015

Lubbi mættur?

Það var bara fyrir tilviljun að ég komst að því í dag að Lubbi væri farinn. Það var sárt. 
Þegar ég hugsa til baka að þá held ég að ég hafi hugsað til hans á hverjum degi frá því ég sá hann síðast. Elsku Lubbi, oh ég vona að hann hafi fundið þig mamma því þú varst hans húsbóndi. Ég treysti mér einfaldlega ekki til þess að kíkja á hann eftir að þú fórst því ég vissi að það yrði of erfitt. Það er ótrúlegt hvað þessi dýr ná stórum sess í hjarta manns. Eins pirrandi og hann gat verið blessaður. :) 


Án efa einn fallegasti hundur sem til var. Sjá þessi augu. Ég á bara erfitt með mig þegar ég horfi á myndir af honum. 

Það var rétt ákvörðun að eignast hann. Ég var svo fegin þegar þið ákváðuð að fá ykkur hann því þú þurftir félagsskap og hundur getur svo sannarlega veitt hann upp að vissu marki. Það var þó best þegar hann náði að draga þig út í göngutúra enda það jú tilgangurinn með þessu öllu saman. Honum þótti þó best að liggja við fæturnar manns allan liðlangan daginn og láta mann finna fyrir sér. 
Ég mun aldrei gleyma því þegar ég var á mínum fyrstu og hálf óbærilegu vikum meðgöngunnar þar sem ég gat ekkert borðað því ógleðin var í hámarki. Ég náði þó að trítla yfir til þín þegar Kjartan fór í vinnuna til þess eins að liggja upp í rúmi í gamla herberginu mínu, allan daginn - dormandi í gegnum ógleðina í hálgerðu móki og alltaf var Lubbi á gólfinu við rúmið. Ef það svo gerðist eitthvað spennandi frammi, eða hann heyrði í einhverjum úti að þá var hann fljótur á fætur að athuga með það en það leið ekki að löngu þar til hann var kominn aftur við rúmstokkinn. Það gerði ógleðis-martröðin örlítið ljúfari. Því ljúfur var hann og ég er svo glöð að Andrea Ósk hafi aðeins fengið að kynnast honum. Hún hafði gaman af því að rífa aðeins í hann og fékk þá aðeins smekk af því hvernig það er að umgangast dýr og virðist hún ekkert vera hrædd við þau í dag. 

Ég meina, hver gat sagt nei við þetta fallega skott í auglýsingu í Sunnlenska? Mesti bangsi í heimi. 

Hlýjar kveðjur til þín mamma mín. Ég vona svo heitt og innilega að þú sért á góðum stað og að Lubbi hafi ratað til þín. 



föstudagur, 6. mars 2015

Mín besta og mesta.

Þú varst í mínum augum það allra besta. Ég var svo stolt að vera dóttir þín en jafnframt svo óendanlega þakklát fyrir það hversu góðar vinkonur við vorum. Þú varst mín besta vinkona, þú varst mér mest. 
Ég brotnaði niður hjá sálfræðingnum á miðvikudaginn því ég sakna þín svo að ég fann í hjartanu að ég var að ganga í gegnum svo erfiða göngu að ég þurfti á þér að halda. Undir öllum öðrum kringumstæðum hefði ég leitað til þín, fengið huggun hjá þér og þú þerrað tár mín. Hvar finn ég staðgengil þinn? Fyrir utan að ég myndi aldrei vilja finna staðgengil fyrir þig að þá held ég að það sé ómögulegt. Það hefði enginn getað gert hlutina eins og þú gerðir þá. Það hefði enginn getað gert mig jafn örugga og þú gerðir. Þú varst mín besta og mesta og án þín er það besta og mesta horfið. Ég hugsa á hverjum degi að þetta hljóti nú að verða bærilegra á morgun en sá tími er ekki kominn. Sá tími virðist vera óralangt í burtu enda get ég ekki með nokkru móti hugsað mér að hlutirnir verði einhverntíman léttari þegar þú ert farin. 

Þegar það kemur upp svo ákveðið í huga minn sú fáránlega staðreynd, já fáránleg er hún. Þú dáin? Ha... getur þetta í alvöru komið fyrir? Þú áttir að sigrast á þessu. Eða allavega lifa með þessu mun lengur. - Þessi hugsun, sem tekur um nokkur sekúndubrot að hugsa og það kemur brunatilfinning í hjartað. Eða hjartað? magann, einhversstaðar innra með mér fæ ég brunatilfinningu og hún varir mun lengur en í nokkur sekúndubrot eins og hugsunin. Hún getur stundum fylgt mér út í nóttina og ég kvíði því að vakna. Þú ert það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna, og það síðasta sem ég hugsa um þegar ég fer að sofa. Það var þannig áður en þú fórst nema þá gat ég fengið svör. Þá gat ég sent þér sms og spurt þig hvernig þú hefðir það, eða hringt og heyrt röddina þína. Oh mamma, ég sakna þín svo. 

Takk fyrir að vera mín besta og mín mesta í 24 ár. Vildi óska þess að þau hefðu verið miklu fleiri árin okkar saman.