fimmtudagur, 14. september 2017

Ár frá síðustu færslu, úff...

Kökkur í hálsi og augun full af tárum við lestur á síðasta blogginu mínu til þín. Ég man svo vel þegar ég skrifaði þetta, vá hvað hjartað mitt var kramið.

Ég sakna þín mamma.
Ég var að byrja í sálfræði við Háskóla Íslands. Finnst ég voðalega fullorðin eitthvað og vildi óska að ég gæti deilt öllum mínum tilfinningum með þér. Ég næ ekki einu sinni að gera mér það í hugarlund hvað þér myndi finnast um það að ég hafi farið í sálfræði.... alveg eins og Elín??? myndir þú líklega segja. Of mikið að hafa tvo sálfræðinga í fjölskyldunni :)
Þú hafðir alltaf tröllatrú á því að ég yrði dýralæknir, eða einhversskonar læknir. Draumar mínir lágu þar en sjálfsálit mitt bar mig því miður ekki þangað. Eftir öll þín veikindi var ég líka komin með alveg nóg af sjúkrahúsum, læknum, og veikindum yfir höfuð. En dýralæknirinn, ohh það hefði verið gaman.
Sálfræði á samt vel við. Mig langar svo að vita afhverju ég er eins og ég er. Afhverju þú varst eins og þú varst og hvað það er sem gerir okkur að manneskjunum sem við erum. Þetta er samt ansi strembið og það er frekar fyndið að ég skuli láta það út úr mér þegar aðeins tvær vikur eru liðnar af náminu. En þú þekkir mig, hrædd við breytingar og finnst ég aldrei nógu klár. Ég er það samt, ég veit ég er það. Ég þarf bara að læra það fyrir lífstíð að trúa á sjálfa mig og trúa því að ég get allt sem ég vil geta. Ég gæti alveg orðið dýralæknir og kannski verður það veruleiki seinna meir - ekki slæmt að vera með sálfræðilegan grunn áður en ég fer að lækna öll dýrin ;)

Þú ert í huga mér alla daga og stundum koma dagar sem ég brest í grát, yfir einhverju sem er þér alveg ótengt - kannski eftir eitthvað ósætti, eða ef illa hefur gengið og um leið og tárin byrja að streyma að þá kemur hugsunin upp; "Ég sakna mömmu". Ég segi það reglulega við Knút þegar ég ligg hjá honum, grátandi, hvað ég sakna þín. Viðbrögð hans eru alltaf af einstakri þolinmæði og væntumþykju og það er alveg ómetanlegt. Það er líka bara orðið svo eðlilegt að leyfa tilfinningunum bara að streyma með tárunum og hann tekur alltaf utan um mig og þá er þetta eitthvað sem kemur oftast nær frá mér, án þess að ég hugsi það nokkuð og viðbrögðin eru aldrei neikvæð. Heldur bara að leyfa þessu að eiga sér stað og ég er svo fegin því þetta er svo stór partur af mér. Oft langar mig að tala um þig svo tímunum skiptir en ég held alltaf að allir séu orðnir þreyttir að hlusta. En ég gæti talað um þig endalaust. Ég þarf að gera það meira við Elínu því ég veit að henni líður eins innanbrjóst. Við söknum þín öll alveg hrikalega, það eru ekki til nægilega stór lýsingarorð til að ná utan um það.
Það væri svo gott að hafa Elínu nær. Ólöf Embla og Andrea Ósk eru alveg dásamlegar saman - vildi óska að þú gætir séð þær. Þær urðu fyrir svo miklum missi að hafa misst elsku bestu ömmu sína. Oh mamma Andrea Ósk hefði haft svo gaman af því að vera hjá þér, fara til ömmu í "sveitina"...

Ég mun aldrei jafna mig mamma..... ég mun aldrei ná sáttum við þetta allt saman. Ég þarf svo á þér að halda. Mömmuknús væri vel þegið

Elska þig mamma mín