fimmtudagur, 22. febrúar 2018

Elsku hjartað mitt

Hæ mamma

Ég sakna þín. Ég er alltaf að hugsa um að skrifa hér til þín eins og ég var vön að gera en þess í stað er ég farin að eiga samtöl við þig í huganum. Segi þér þá hvað liggur mér á hjarta og hversu mikið ég vildi að þú værir hér hjá mér.
Það er til dæmis orðin rútína á kvöldin að hugsa fallega til þín, sjá þig fyrir mér á góðan hátt. Það tók langan tíma að geta þetta; áður komu bara upp erfiðar minningar, minningar af veikindum þínum og það virtist allt litað af því. Núna get ég hugsað um fallegu stundirnar. Það er alveg bjarmi í kringum þig þegar ég dreg upp mynd af þér í höfðinu. :) enda ekki skrítið, þú ljómaðir alltaf og ég vona að ég fái allavega rétt svo þann hæfileika að vera jafn dásamleg og þú.

Ég hef það ágætt. Ég er farin að finna mér leiðir til þess að láta mér líða betur og það gengur vel á ýmsa vegu - aðra aðeins erfiðara. Rakst á minningargreinarnar um þig um daginn og það var sárt og erfitt og ég fór um leið aftur um 3 ár þar sem allt var óbærilegt.
Ég er dugleg að segja Andreu Ósk frá þér. Hún skilur samt ekkert alveg afhverju þú ert ekki hér, afhverju hún eigi ekki ömmu Ólöfu en seinna verður útskýrt fyrir henni og að þú sért að passa vel upp á okkur. Ég veit þú ert að gera það eftir fremsta megni - þó þú getir kannski ekki alveg stjórnað öllu (eins og ég var að biðja um lottóvinninginn í síðustu viku manstu? ;)

Ég hugsa til þín alla daga og oft öllum stundum. Ég sé þig svo í mér og ég er svo stolt. Ég ætla að gera þig stolta því ég veit þú ert að fylgjast með.

Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, ég mun lifa með það allt og þar af leiðandi hafa forskot á svo margt. Þú varst náttúrulega mesti snillingurinn og það er ekki slæmt að hafa erft frá þér sumt af þínum bestu kostum.

Knús elsku mamma. Ég elska þig og sakna þín meira en orð fá lýst

Vona að þú hvílir í friði