sunnudagur, 28. desember 2014

Tómarúm í hjartanu.

Langar alltaf til þess að byrja á að tjá mig um hversu mikið ég hef hugsað til þín en þá átta ég mig á því að ég hef hugsað til þín nànast stanslaust síðan þú fórst. Þetta er svo skrítið. Þú ert alltaf í huga mér en víkur þó fyrir daglegu amstri en um leið og hægist finn ég fyrir þér. 
Ég vildi óska þess að þú værir hér. Jólin voru erfið án þín. Þau voru eiginlega allt öðruvísi en ég var vön með þér þrátt fyrir að við reyndum að hafa allt eins. Það vantaði náttúrulega aðal manneskjuna og þín var sárt saknað. Þín verður sárt saknað það sem eftir er. 

Vildi koma nokkrum orðum til þín þar sem ég ligg hér undir sæng og reyni að hvíla mig en hugurinn stoppar ekki enda nóg um að hugsa þegar þú ert annars vegar.

Elska þig.

mánudagur, 22. desember 2014

Útskriftin.

Loksins. Já þessi dagur rann upp og var allt öðruvísi en ég hafði nokkurntíman gert mér í hugarlund. Ég dró Kjartan, Jóa, Valda og Haffa og voru þeir alla athöfnina sem var í rauninni drep leiðinleg og löng. Ég var ánægð að sjá þá þarna aftast, standandi og fúla í framan - eða svona, þeim leiddist þetta. Þeir fengu þó eina kökusneið og kleinu fyrir afrekið. 



Jói hafði það á orði að hann væri nú búinn að bíða eftir þessum degi í 4 ár og það hafi alltaf átt að vera veisla. En það var ekki hægt því það var enginn til þess að baka kökurnar. Við erum nefnilega öll hálf hjálparlaus án þín en sem betur fer hjálpumst við að og eigum góða að. Tengdafjölskyldan mín sá til þess að gera daginn ógleymanlegan og á ég þeim svo margt að þakka. Það var alveg rétt hjá þér það sem þú sagðir. Þú skyldir mig eftir í góðum höndum. 

Hugsa mikið til þín, alltaf. Þegar ég sat að bíða eftir að fá plaggið mitt og fá að setja húfuna á kollinn að þá hugsaði ég svo mikið til þín. Stundum ef ég hugsa of mikið til þín í einu, þá koma tárin svo það munaði mjóu þarna. Ég var nefnilega að hugsa að þú stæðir þarna í horninu og ég vona að það hafi verið satt. Ég sakna þín mikið og er smeyk að fara takast á við jólin. Það verður forvitnileg Bónus ferðin með Jóa á morgun. Er að reyna hugsa hvað mikið þú hefðir keypt af þessu og hinu en veit bara ekki neitt. Þú kannski laumar svarinu til mín í svefni - það væri fínt. 

Elska þig alltaf mamma mín og sakna þín sárt. 

laugardagur, 13. desember 2014

Uppþvottavélin.

Hæ mamma mín.

Nú sit ég og hlusta á Eivor, Dansaðu Vindur. Ég heyrði þetta lag í gær og varð strax hugsað til þín enda minnir nánast allt á þig og þú ert alltaf í huga mér. 
Sálfræðingurinn minn hafði það á orði í gær hvað ég væri heppin að eiga svona margar góðar minningar um þig og um leið og ég færi að rifja þær upp að þá kæmi ljómi í augun mín. Það er bara þannig. Sama hversu mikil tár koma að þá sést það samt í augum mínum hversu dásamleg manneskja þú varst og hvað ég á margar ógleymanlegar minningar um þig. 

Ég hef einmitt tekið mér heilu kvöldin til þess eins að safna saman minningum um þig í huganum. Á tímum fannst mér nefnilega langt að sækja þær því sorgin heltók mig og því enduðu þessi kvöld stundum í miklu svekkelsi því mér fannst ég ekki ná að grípa neina minningu því þær komu á ljóshraða, í milljóna-tali í gegnum huga minn. Minningarnar koma þegar ég er ekki að þvinga þær fram - það er ég búin að læra. 

Uppþvottavélin já. Loksins eignaðist ég eina slíka og núna þegar ég settist niður með tölvuna og ætlaði að slaka á að þá ómar uppþvottavélin í bakrunn - maður var ekkert að splæsa í neina hljóðláta, neinei það er aukaatriði. Mér varð strax hugsað til þín og þeirra skipta sem ég rölti yfir til þín með þvottabalann fullan af leirtaui til þess að fá að setja í uppþvottavél hjá þér. Jah, svona gat maður verið latur. Þú hinsvegar yptir ekki öxlum yfir því enda orðin vön minni háttsemi. 

Sakna þín mamma mín. 


sunnudagur, 7. desember 2014

Mánuður af söknuði - það sem eftir er.

Ég fékk í dag mjög mikla þörf til þess að hringja í þig og heyra í þér hljóðið. Ég var nefnilega svo vön að hringja í þig og athuga með þig þegar ég var í bænum. Þetta var hálfgert högg í magann því tilfinningin var svo sterk og svo eðlileg í mínum huga að þegar mér varð ljóst að fleiri yrðu ekki símtölin okkar á milli fann ég fyrir depurð. Ég var fljót að segja Kjartani frá þessu hugar-augnabliki mínu enda hjálpar það mér svo mikið að tala um þig og hversu mikið ég sakna þín. 

Í dag er mánuður síðan ég fékk að halda utan um þig í hinsta sinn mamma mín. Ég gæfi svo margt fyrir bara eitt faðmlag í viðbót, þó það myndi samt aldrei vera nóg. Ég sakna þín svo rosalega og mér finnst allt alveg óttalega erfitt án þín.  

Hugsa til þín alla daga elsku besta mamma mín - elska þig. 

þriðjudagur, 2. desember 2014

25 dagar.

Hæ mamma mín. 

25 dagar síðan þú fórst og ég er ennþá með verk í maganum. Hvenær fer hann? 

Ég er að gefa mig alla í þetta líf sem ég lifi til þess að þetta verði sem bærilegast en það er samt svo erfitt að hafa þig ekki hér. Andrea Ósk heldur mér við efnið allar stundir og er ég svo þakklát fyrir hana, sem og alla hina sem eru að hjálpa mér á þessum erfiðu tímum. 

Það er gríðarlega erfið tilhugsun að loksins skuli ég ná þeim áfanga að verða stúdent núna um jólin og þú munt ekki sjá mig með hvíta kollinn. Þú vissir nú samt alltaf að ég næði þessum áfanga og varst ekkert að stressa þig á því eins og ég......... ég mun hugsa til þín þá, sem og alla aðra daga. 

Elska þig mamma mín.