miðvikudagur, 29. júlí 2015

Langt um liðið.

Langt síðan ég settist niður og skrifaði til þín mamma mín. Það þýðir samt ekki að ég hafi ekki verið að hugsa til þín, reyndar alveg öfugt. Hugsa til þín alla daga og sakna þín. Síðasta færsla til þín var erfið. 17. júní var erfiður dagur og það tók mikið á að skrifa þessi orð til þín. Það er kannski ástæðan fyrir að ég hef ekkert skrifað því það dregur tilfinningarnar upp á yfirborðið og ég verð viðkvæm. Ég er mjög viðkvæm og það þarf minnsta tilefni til þess að ég fái kökk í hálsinn og hugsi til þín með óbærilegri sorg. 
Það var til dæmis í fyrra dag alveg ljómandi gott og fallegt veður þegar ég vaknaði með Andreu Ósk. Sólin minnir á þig og eins þakklát og ég er fyrir góða veðrið að þá dregur það mig líka niður því ég vildi helst njóta þess með þér. 
Ég steig út á pall ásamt Andreu Ósk og við sátum vel og lengi án þess að segja orð. Þess á milli fór hún inn að ná í skó á sig, og síðar skó á mig. Á meðan sat ég og leyfði tárunum að streyma. Var með smá samviskubit yfir því að vera gráta fyrir framan litla barnið mitt en ég gat ekkert að þessu gert. Hún virtist ekki kippa sér upp við þetta og ég lét fossinn halda áfram sína leið. Síðan sest litla óskin mín í fangið á mér og gefur mér þetta hlýja faðmlag. Það gaf fossinum ennþá meira flæði en ég fann fyrir hlýju og hugsaði með mér; "Mikið er dóttir mín rík að eiga mömmu........" - og svo auðvitað hvað hún væri bjargvætturinn minn en það þarf vart að minnast á það. Þetta faðmlag var ómetanlegt. Hún klappaði mér á öxlunum þar sem að hendur hennar náðu ekki lengra en þetta var allt saman svo dásamlegt af henni. Þessi litla sál sem var bara glöð í sinni veröld og virtist ekkert taka eftir því að mamma hennar væri leið, væri að gráta en kemur svo til að hugga. Þau eru ansi skörp þessar elskur. 

Það er skrítin tilhugsun að það sem eftir lifir eigi ég eftir að sakna þín svona sárt. Ég reyni að venjast þessu en það er ekki hlaupið að því. 

Ég finn fyrir öfund til allra þeirra sem eiga mömmu. Ég sakna þess að segja "mamma". 

Nú eru mjög stór tímamót í lífi mínu en við Laugarvatn erum að skilja, að sinni. Það er búið að vera rosalega erfitt að vera hérna og ég fann það svo vel í fyrradag þegar ég vaknaði og þetta líka dásamlega veður blasti við mér ásamt fallega Laugarvatninu. Á svona stundum hefði ég óneitanlega rölt yfir til þín og fundið þig í gróðurhúsinu þínu eða labbandi um garðinn að vökva fallegu blómin þín. Það verður ákveðinn léttir að komast héðan en samt finn ég fyrir depurð í hjartanu mínu. Þetta eru allt svo skrítnar tilfinningar. 


Læt þetta duga í bili áður en allar gáttir opnast. 

Sakna þín sárt.