sunnudagur, 13. desember 2015

Verð mín - Eivör

Hæ mamma mín.

Það er alveg ofboðslega fallegur dagur í dag og ég er að hugsa til þín, að vanda. Ég er að spila Eivor og röddin hennar er svo guðdómlega falleg að ég hugsa alltaf til þín. Þú varst guðdómlega falleg. Ég var alltaf svo montin að vera dóttir þín enda leistu alltaf svo vel út. Varst alltaf vel til höfð enda átti svo vel við þig ein setning sem hún Hlín, fyrrum samstarfskona mín sagði oft; "Konur sem hafa sig ekki til eru konur sem líða illa". Ég tengi oft mikið í þetta en þetta getur verið tvírætt. Ég held til dæmis að þú hafir alltaf haft þig til, til þess að líða betur. Ef þú hefðir látið það ógert hefði myrkrið unnið. Í stað þess léstu ljós þitt skína með þinni einskærri fegurð og settir upp bros. 
Ég reyni í dag að gera það sama. Þegar ég vakna reyni ég að hafa mig til, til þess eins að gera daginn bærilegri. Það er ótrúlegt hvað það hjálpar! En stundum koma dagar sem mig langar bara ekkert til þess og þá verða dagar eins og síðasti föstudagur. Það eitt að horfa á sjálfan sig í spegil verður að einhverri hatursorðræðu í huganum og allt verður ómögulegt. Auðveldast er því að spóla bara aðeins áfram og skríða aftur upp í rúm og draga sængina yfir höfuðið. Núna reyni ég að telja mér trú um að ég hafi bara þurft á þessu að halda. Sofa, gleyma, vera í friði en þegar upp er staðið að þá leið mér ekkert betur. Núna hefði ég viljað að ég hafi bara bitið á jaxlinn, skirpt í spegilinn og sagt honum að fara til fjandans og mæta mínum daglegu skyldum. En þarna hafði vonleysið yfirhöndina og dagurinn einkenndist af því það sem eftir var. Jafnvel öll helgin! 
Það er samt ákveðinn sigur að sitja hér og átta sig á þessu. Áður fyrr hefði ég ekki gert það. Þetta var svo stór partur af lífi mínu en núna næ ég að standa mig 99% af tímanum. Eða kannski 95%, er ekki alveg svona nálægt fullkomnun. :)  Ég er mjög oft stolt af mér og ég fagna því í hvert skipti sem ég fæ hláturskast. Það er það besta sem ég veit! ....eins og þú veist. Ég og hlátur erum bestu vinir og er mjög erfiður tími þegar hann bankar ekki upp á reglulega. Hlátur bætir og kætir, það er bara þannig. 

Hugsa um öll þín hlátursköst og tengi svo við. Það er ótrúlegt hvað sumt getur verið fyndið og maður getur varla staðið í lappirnar. Þannig stundir einkenna mig og ég fagna þeim í hvert skipti sem þær koma. 

Það var erfitt að fara í gegnum gamla símann minn þar sem allar síðustu myndirnar af þér eru. Það er langt síðan ég "stalst" til að kveikja á honum til þess eins að lesa sms frá þér og skoða myndir. Verst þykir mér þó hversu léleg ég var að taka myndir. Ég myndi vilja eiga allar heimsins myndir af þér. Sms in á milli okkar voru mörg og það yljar mér um hjartarætur að lesa í gegnum þau. Ég elska þig svo mikið. Hvernig á ég að fara að? Ég er svo týnd mamma. Mér finnst ég svo ein án þín. Hvert fer ég ef allt fer á versta veg? Ég er svo hrædd. Bara ef ég fengi nokkra klukkutíma með þér í viðbót. Jafnvel nokkrar mínútur. Finna fyrir þér, finna að þér líði vel. Líður þér vel mamma? Það var svo erfitt og mannskemmandi að horfa á þig þjást svona. Síðustu myndirnar sem ég á af þér að þá varstu eins og lifandi lík. Harkalega sagt hjá mér ég veit en þetta er það eina sem kemur upp í hugann. Hvernig getur lífið verið svona grimmt? Ég bara skil það ekki. Lífið var svona hrikalega grimmt við þig en á sama tíma voru líka yndislegir hlutir að gerast. Það er erfitt að hugsa til þess að þessi rúmlega tvö ár sem Andrea Ósk mín hefur verið til hafa verið þau erfiðustu en á sama tíma þau bestu. Hvernig gengur það? Ég get ekki einu sinni reynt að ímyndað mér hvernig síðustu tvö ár hefðu verið ef allt annað væri í lagi. Ég hefði eignast mitt fyrsta barn, þú hefðir verið heilsuhraust og allir hamingjusamir. Það þarf alltaf að taka líka frá manni, þegar eitthvað gott er. 
Ég sakna þín mamma mín. Meira með hverjum deginum. Í dag er erfitt en það er bara þannig. Gott að geta "talað" við þig hér og losað um nokkra lítra af tárum. Það var sko kominn tími á það. :) Langar samt að gráta í faðmi þínum og láta þig hugga mig. Þó svo að það hafi alltaf verið erfitt fyrir þig að sjá mig gráta að þá langar mig bara að vera sjálfselsk. Ég þarf þig mamma. Gerðu það hjálpaðu mér. Getum við hisst í draumaheimi? Langar svo agalega mikið að knúsa þig. 

Elska þig ástin mín. 


sunnudagur, 6. desember 2015

Sjálfsvorkun í hámarki.

Það er náttúrulega ekki frásögu færandi að vera ræða það hversu mikill bjáni maður getur stundum verið. Yfirleitt alltaf er ég langt frá því að detta í þennan gír, hugsa frekar hversu lánsöm ég er að eiga litlu óskina mín, vera heilsuhraust og eiga ofan í mig og á. EN stundum. Já stundum er núna. Þá finn ég alveg ofboðslega til með sjálfri mér. Er það eðlilegt? Þegar jólin nálgast og mér finnst ég stundum standa ein, gjörsamlega yfirgefin og enginn bíðandi eftir því að halda jólin með mér. Engar hefðir sem ég þarf að gera til þess að komast í "gírinn" því allar hefðirnar voru gerðar með þér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að uppfylla þær án þín. Þarf ég þá að búa til nýjar hefðir? Ég þarf að vera bjartsýnari hvað varðar jólin því núna þarf ég að vera mamma sem gerir ógleymanleg jól fyrir Andreu Ósk. Það er bara heljarinnar hlutverk. Hvernig fórst þú að?

Æj mamma. Ég þarf svo mikið að tala við þig. Ég þarf faðmlag og huggun. Ég þarf að hlæja og fíflast með þér - við vorum svo miklir púkar. Enda ekkert skemmtilegra en að sjá þig í hláturskasti. Ég reyni mitt besta alla daga að hlæja, hlæja bæði fyrir mig og þig því það fyllir mig gleði en stundum get ég ekki meir. Núna er ég þreytt. Sef og sef og þá vitum við nú hvað gerist. Svefnpurkan má ekki sofa of mikið. Þrái það heitast að dreyma fallegan draum um þig en hann hefur ekki komið ennþá.

Sólin er að setjast núna klukkan 14:26 og mér finnst ég hafa sóað deginum. Nú þarf ég að rífa mig upp og fara gera eitthvað sem gefur lífinu lit.

Vildi bara senda þér línu fyrst.

Elska þig, alltaf!