miðvikudagur, 29. apríl 2015

Ein mamma.

Maður hefur fengið að heyra allskyns útgáfur af samúðarkveðjum eftir að þú kvaddir. Þær eru eins mismunandi og þær eru margar. Í gær kom eitt nýtt korn í safnið en þar var kona sem svaraði því þegar ég sagði að þetta væri bara alveg hrikalega erfitt; þú átt bara eina mömmu. Það hitti beint í mark! Ég fann til og síðan þá hef ég fundið fyrir reiði. Ég er oft mjög reið. Það sést samt ekkert á mér þar sem ég hegða mér eins og hið ljúfasta lamb en inn í mér sýður eitthvað. Ég er ofboðslega bitur og ég gæti talað lengi um það hversu lífið er oft alveg ótrúlega ósanngjarnt. Í dag fann ég fyrir reiði og ég fór tvisvar sinnum og hreyfði mig eitthvað af viti. Hreyfing gefur þá útrás sem ég þarf til þess að komast hjá því að springa ekki bara. Þannig næ ég að viðhalda þeirri framkomu sem ég vil að fólk fái frá mér. 

Alveg inni er ég alveg hrikalega einmanna. Reið. Sorgmædd. Og allskonar tilfinningar sem ég kann ekki skil á. Þetta er versti rússibani sem ég haf farið í. 

sunnudagur, 26. apríl 2015

Gróðurhúsið.

Það er eiginlega hálf ómögulegt að reyna útskýra líðan mína þessa dagana. Eða bara alla daga, hvort sem það var áður en þú fórst eða eftir. Eftir að þú fórst, hrundi veröld mín og ég hef síðan reynt að týna saman þessi agnarsmáu brot til þess að reyna pússla þeim aftur saman en ég finn að það er mikið verk eftir. Fyrir utan að mörg brotin verða aldrei endurheimt og var það vitað frá því augnabliki sem þú tókst þinn síðasta andardrátt að nú væri ófyllanlegt skarð í hjarta mínu. 
Mér finnst eins og enginn skilji mig og hvernig mér líður og það er eflaust satt - upp að vissu marki. Ég tengi samt við marga sem eru að útskýra líðan sína varðandi ástvinamissi. Þetta er bara svo hrikalega sárt. 

Garðurinn þinn er alveg eins og þú skyldir við hann. Hann er illa farinn eftir veturinn og býður bætur sínar. Þú klikkaðir aldrei hvað það varðaði að setja sumarsvipinn á fallega garðinn þinn. Það allra skrítnasta er líka það að þetta er ekki lengur garðurinn okkar. Nú býr nýtt fólk í húsinu okkar. Æskuheimilið mitt sem er hér nánast við hliðina á mér og ég sé á hverjum degi. Það virðist stundum eins og ég tengi ekkert við það. En svo koma stundir sem ég reyni að horfa ekki á það því ég finn til við það. Það eru bókstaflega líkamlegir verkir að horfa á garðinn þinn. Gróður húsið þitt. Eplatrén þín. Ljósgræni plastkassinn sem þú notaðir til að gera Guð má vita hvað, er ennþá þarna. 
Ég dauðkvíði því að þurfa fara í gegnum þetta allt núna fljótlega. Tilhugsunin um að labba inn í gróðurhúsið er eiginlega óbærileg. Getur þetta í alvöru verið? Þetta getur verið meira helvítið. 

Ég á afmæli eftir 6 daga og það er engin tilhlökkun. Fyrsta afmælið án þín. Fyrsta afmælið sem ég fæ ekki kveðju frá þér. - Ég mun samt halda andliti og fela sorgina því það skilur enginn. Það skilur enginn að ég finn alveg ólýsanlega til. Fólk segir bara; "Lífið heldur áfram....." - Já, lífið heldur áfram en það er þeim mun fjandi erfiðara að lifa því. 

Ég er búin að hafa mikla þörf til þess að tala við þig síðustu daga. Það er reyndar alla daga, hvað er ég að bulla. Ég þarf að tala við þig alla daga. Það er alltaf eitthvað sem liggur á hjarta sem mér finnst aðeins þú getað hlustað og ráðleggt. 

Og nú er bara það sem eftir er.......eftir.

fimmtudagur, 16. apríl 2015

Það góða getur ekki verið án þess slæma.

Í dag fékk ég að gefa nýfæddum kálf að drekka. Þetta var sko alvöru sveita - ég hugsaði allan tímann til þín. Ég hlakkaði nefnilega svo til að koma heim og segja þér frá þessu og hvað þetta var æðislegt. Viðbrögðin þín hefðu ekki leynt sér enda var þetta sko lífið, að gefa nýfæddum kálfinum mjólk og í leiðinni að kenna honum að drekka úr fötu með túttu á. Þetta var alveg magnað. 
Ég sakna þín.

Ég finn að það er stór alda að fara koma. Þetta kemur nefnilega í öldum og það er farið að lengjast á milli þeirra en þær koma þó alltaf jafn ákveðið þegar þeirra tími er. Ég hræðist þessar öldur. Tilfinningin er nefnilega þannig að söknuður kemur í öldum og á verstu tímunum er eins og maður sé að drukkna. 

Amma skrifaði svo fallega um þig í dag þegar hún sagði að hún væri þakklát fyrir þann tíma sem þau fengu með þér. Ég á ennþá mjög erfitt með að sjá það góða í því sem var því alltaf kemur upp í huga mér að við áttum skilið svo miklu fleiri ár. Fyrir mér var líf mitt að byrja. Ég var í fyrsta skipti búin að vera fyllilega full af lífi í um ár, eða þegar Andrea Ósk fæddist. Ég fékk ár með þér sem manneskjan sem ég hef alltaf viljað vera. Mér var alltaf ætlað að verða móðir og verður það ljósara með hverjum deginum. Ég mun reyna mitt allra besta til þess að feta í fótspor þín. Þú varst það allra besta. 

Ég vona að við förum að hittast í draumaheimi. Getum við mamma? Við skulum eiga góðar stundir saman og ég vil muna drauminn þegar ég vakna. Gerðu það mamma, ég sakna þín svo sárt. 


Ég elska þig. 

mánudagur, 13. apríl 2015

Lyktin þín.

Ég setti úlpuna mína (þína) í þvott í dag og svo þurrkarann. Ég hafði áhyggjur af henni allan tímann enda hefur mér sjaldan þótt ein flík jafn nauðsynileg og þessi. Það yrði alveg gríðarlega erfitt ef hún myndi eyðileggjast. Það er þó farið að sjá mun meira á henni en gerði þegar þú varst í henni enda varst þú ekki þessi fataböðull sem ég er. Ég hugsa um það daglega að setja hana í geymslu með uppáhalds peysunum sem þú prjónaðir. Ég nefnilega held fast í þetta og ég get ekki útskýrt afhverju það skiptir mig svo miklu máli. 
Þegar ég svo hengdi upp úlpuna eftir þurkarann að þá fann ég lyktina þína. Ég stóð mig að því að þefa aftur og aftur og í leiðinni fá smá hugarró. 

Ég er með ilmvatnsglas frá þér í skúffu inn í anddyri og ég finn stundum lyktina áður en ég fer út í daginn. Það eru ótrúlegustu hlutir sem maður gerir til þess eins að líða aðeins betur. Eða fá aðeins meiri tengingu. 

Vildi óska að ég gæti talað við mig mamma mín. 

sunnudagur, 5. apríl 2015

Fyrstu páskarnir.

Ég man páskana 2012 alveg sérstaklega vel. Þá var ég í fyrsta skipti ein - eða Kjartan var með mér en við vorum hálf umkomulaus en ég átti að vinna í Reykjavík þessa páska og því var ekki gerð ferð austur fyrir fjall til þín í páskalærið. Í staðinn fyrir páskalærið og eintómar veislur að þá var borðað pasta. Ég man hvað ég hugsaði heim til þín og góða matarins þíns. 

Í dag fékk ég góðan mat, mikið af súkkulaði og almennri skemmtun. Tómarúmið var þó jafn tómt og áður fyrr og því náði ég ekki að njóta til fulls. Fyrstu páskarnir án þín. Við eyddum síðustu páskum saman á Akureyri. Í kvöld reyni ég að fara yfir þær minningar sem ég á frá þeim tíma. 

Gleðilega páska elsku mamma mín. Elska og sakna þín sárt.