föstudagur, 21. ágúst 2015

Fyrirgefðu, ég elska þig, ég sakna þín og allt þar á milli.

Fyrirgefðu mamma mín. Ég ætlaði alltaf að skrifa á hverjum degi færslu til þín sem hét einfaldlega "fyrirgefðu" - til þess að koma því á framfæri að ég fann sárt til að finna fyrir pirring eða reiði gagnvart þér og vildi biðjast afsökunar. Ég vil aldrei, aldrei, aldrei sjá eftir neinu hvað þig varðar og það sem verst er, ég vil aldrei erfa eitthvað við þig. Ég gæti ekki einu sinni byrjað að útskýra hversu dásamleg móðir þú varst og ég mun aldrei getað þakkað nægilega fyrir allt sem þú gerðir. 
Það er svo ótrúlegt hvað tilfinningarnar fljúga í allar áttir. Ég er bókstaflega búin að falla niður á hné mín og brotna niður yfir söknuði til þín. Ég hef fundið svo til að það verkjaði og ég hef upplifað mesta vonleysi sem ég vona að ég muni nokkurntíman upplifa um ævina. Ég elskaði þig svo mikið og ég dáði þig enn meira og ég sakna þín svo mikið. Ég er sár út í mig fyrir að hafa verið sár út í þig. Núna rétti ég bara upp hendina og segi; "High five mamma" - til fjandans með þetta. Ég vildi bara óska þess að ég hefði getað aðstoðað þig meira þegar kom að þessu öllu saman. Ég hefði nefnilega alveg getað það, meira en ég gaf í ljós. - "Margur verður að aurum api" á vel við núna og ég vona að ég hafi lært betur á þessu. 

Það er alveg gríðarlega erfitt hlutverk að standa beinn í baki og verja móður sína fram í rauðan dauðann, jafnvel vitandi það að sökin lá hennar megin. Að einhverju leyti. Það er bara svo ótrúlega margt sem kom upp á móti og ég stend stolt, verandi dóttir þín. Ég mun alla tíð taka upp hanskann fyrir þig og eflaust ganga rækilega í skrokkinn á hverjum þeim sem reynir að draga þig á einhvern hátt niður. Það er ótrúlegt hvað fólk grefur eftir djöflum manns og lítur framhjá öllu þessu góða. Ég er svo yfir mig full af þakklætistilfinningum þegar kemur að þér að djöflarnir hrekjast fljótt í burtu. Fari þeir til fjandans þessi helvítis djöflar. 

Mikið rosalega var afmælisdagurinn þinn erfiður. Ég gjörsamlega brotnaði niður. Ég fann fyrir mikilli öfund allt í kring um mig og eins og þú sagðir alltaf að þá á maður ekki að vera afbrýðissamur - það er ekki góð tilfinning. Einhvernveginn hef ég allt mitt líf fundið fyrir þeirri tilfinningu og ég reyni eftir fremsta megni að ýta henni frá mér en ég þrái það heitast að eiga ykkur pabba og Odd hjá mér. Ég öfundaði alla sem áttu pabba en gerði mér jafnframt grein fyrir því að ég átti heimsins bestu mömmuna. Núna fellur pabbi í skugga þinn enda öfunda ég alla sem eiga mömmu. Ég öfunda alla sem eiga foreldra. Mér finnst ég svo ein og aðkomulaus. Er ég munaðarlaus? Mér líður eins og munaðarleysingja þó svo að ég sé orðin mamma sjálf. Það sest oft leiðindar tilfinning að þegar ég hugsa að Andrea Ósk eigi nánast enga ættingja mín megin. 

Pabbi Beggu vinkonu á líka afmæli 15. ágúst og þar sem við vorum á milli heimila á þessum tíma að þá voru þau svo æðisleg að leyfa okkur að vera hjá sér. Það var samt óbærileg tilhugsun að þau fóru öll í afmæli til pabba hennar um daginn. Öll fjölskyldan saman komin til að fagna afmælisins og ég átti svo bágt. Ég þráði ekkert heitara en að geta hitt þig, borðað kökur með þér og lifað eðlilegu lífi eins og allir aðrir virðast gera. Afhverju við? Lífið er stundum svo hrikalega erfitt. Ég græt oft og finn til og nú fer veturinn að skella á og tilhlökkunin lítil. 

Ég verð að hætta núna áður en ég þorna öll upp eftir táraflóð kvöldsins. 

Elska þig endalaust mamma mín og sakna þín alltaf.