miðvikudagur, 17. júní 2015

17. júní 2015.

Í dag er ár síðan ég sat við eldhúsborðið þitt, grátandi, því tilhugsunin um líf án þín var óbærileg. Þú tjáðir mér að þú vildir ekki deyja og saman grétum við. 
Ég fæ tár í augun bara við það eitt að hugsa til baka. Bara ár liðið en samt svo margt breytt. 

Þennan sama dag baðst þú mig um að taka rakvélina og losa þig við þessa nokkru lokka sem þú varst með. Ég var með gríðarstórann hnút í maganum og fannst tilhugsunin erfið en varð auðvitað að ósk þinni. Þetta er eflaust það skrítnasta sem ég hef gert. Erfitt var það líka en eftir á þá hlógum við. Það var ofboðslega skrítið að sjá þig alveg snoðaða en mikið sem þú varst falleg. Þú varst með alveg einstaklega fallegt höfuðlag og ég dáðist að því hversu yfirveguð þú varst yfir þessu. Þú varst alveg hreint ótrúleg! 

Ég minnist þess þegar þú greindist fyrst, 2003 og ég aðeins 13 ára. Ég og Elín fórum með þér í búð til þess að velja hárkollu og ónotatilfinningin sem ég hafði í maganum. Það var þá sem ég laumaðist bakvið til þess að gráta pínulítið. Ég trúði því ekki að mamma mín væri að verða sköllótt - það var það versta! - Svo kom til að þú misstir ekki hárið og blessaða hárkollann fékk að dúsa inn í skáp ár eftir ár. Það var mikill léttir fyrir eina 13 ára, á gelgjunni. 
Árið 2014, þegar þú svo varðst sköllótt að þá fannst mér þú fallegust í heiminum og ég skyldi ekkert í áhyggjum mínum þarna fyrir rúmum áratug. En svona þroskast maður og breytist og fær aðra sýn á lífið. 

Í dag, 17. júní 2015 - fyrsta Þjóðhátíðardaginn án þín. 
Ég var beðin um að vera Fjallkona og var voðalega montin með það. Það var samt sem áður efi því mér fannst það ekki vera eins fyrst þú gætir ekki séð mig. Ég lét þó slag standa og ég get svo svarið það að mér leið eins og prinsessu. Þú varst í huga mér allan tímann og ég óskaði þess heitast að þú værir með mér og sæir mig í þessum fallega búning. Í dag var það ósk mín. 
Ég vona að þú hafir séð mig, hvar sem þú nú ert. Ég vona að þú sért laus við alla verki, líkamlega og andlega. Að þú sért á stað þar sem að sólin skín og þú þarft engar áhyggjur að hafa. Ég hugsa um þig á fallegum stað og ég veit fyrir víst að Oddur er með þér. 

Ég sakna þín meira en væri nokkurntíman hægt að koma í orð elsku besta mamma mín.