mánudagur, 19. október 2015

Alltaf.

....að hugsa til þín. 

Núna er engin undantekning.


Elska þig. 

föstudagur, 16. október 2015

Lægð eftir lægð.

Já lægðirnar hafa ekki látið á sér standa. Erfiðast er það þegar ónota tilfinningin kemur upp þegar ég er í vinnunni. Þá er lítið hægt að gera. Ég get ekki lengur sagt að ég sakni þín því það er löngu hætt að hafa einhverja merkinu. Í alvöru, það er eitthvað svo miklu meira en að sakna. Hvernig er þetta eiginlega hægt? Ég get fundið fyrir tómarúminu innra með mér og erfiðasti parturinn af því er að reyna komast í gegnum daginn, vitandi að svona verður þetta alltaf. Þessi steypa í maganum. Kökkur í hálsi og sári söknuður sem er ekki hægt að færa í orð. 

Ég sit hér og hlusta á sama lagið. Ég fæ hlutina á heilann og það er einmitt þannig þegar ég finn nýtt fallegt lag. Nýjasta lag minnir á þig. Eins og allt annað. Lagið heitir From Eden en þar væri ég einmitt mikið til í að þú værir. Umkringd dásamlega fallegum blómum og náttúrufegurð. Þú varst alveg einstök þegar það kom að náttúrunni. Ég elskaði hversu græna fingur þú hafðir og hvað það gaf þér mikið. Þú varst náttúrulega flínkari en flestir í þeim efnum enda best í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Ég dáðist að þér. Ég dáist ennþá að þér. - Sagði ég þér það? Var ég nógu dugleg að segja þér hversu dásamleg þú varst? Hversu góður félagsskapur þú varst, þó það væri ekkert talað, einungis nærvera þín. Ég sakna nærveru þinnar svo mikið að ég finn að ég er í gríð og erg að reyna fylla upp í. Þetta brýst jafnvel út eins og þegar manni leiðist og maður fer að raða ofan í sig sætindum og öðru sem gefur stundar vellíðun. En það er alveg ótrúlegt hversu miklum afturförum ég hef tekið eftir að þú fórst. Ég missti gjörsamlega stjórnina og er búin að vera leita síðan en það er ekkert sem gefur mér ánægju. Ég fyrirlít þá staðreynd að vera ekki undir stjórn og að sykur og önnur óhollusta ráði förinni. 
Þú þekktir mig best af öllum og veist því hversu miklu máli þetta skiptir mig. Ég er komin ofan í pitt sem ég næ ekki að klifra upp úr en ég er að reyna. Ég get ekki sagt að ég sé að reyna af öllu afli því það er ekki satt. Ég er máttlítil, þreklítil og hef ekki mikinn þrótt í að taka lífið í nefið um þessar mundir. Það er bara svo rosalega margt sem gerir mig þreytta. Þreytta á líkama og sál. 

Depurðin er verst. Nú finn ég fyrir mikilli depurð og reyni að leiða hugann að einhverju til þess eins að hugsa ekki til þín. Í staðinn fer ég að hugsa um hluti sem eru ekki góðir. Draumaveröld sem mun aldrei verða. Staður þar sem ég gæti verið áhyggjulaus en ég veit samt að svo væri ekki staðreyndin. 

Þú situr á öxlinni minni og hvíslar að mér að heiðarleiki er mikilvægastur. Bein í baki Signý, þú getur þetta!


Elska þig eins mikið og hægt er að elska. Sakna þín meira en það.