sunnudagur, 20. september 2015

Lífið.

Það er að koma þessi svakalega lægð. Ég finn fyrir drunganum læðast aftan að mér og reyna að toga mig niður og ég er svo máttvana að ég get ekki einu sinni reynt að berjast á móti. Það er líka bara eðlilegt. Ég get ekki meir. Hvenær ætlar þetta allt að hætta? Eflaust aldrei. Því það versta er náttúrulega að þú ert ekki hér og það er ekkert að fara breytast, því miður. Ég sakna þín svo mamma mín. Það koma ennþá stundir þar sem ég í alvöru trúi ekki að þú sért farin fyrir fullt og allt. Hvernig getur svona lagað gerst? Ég verð orðlaus og máttvana við það eitt að hugsa til þess hvað lífið er tómlegt án þín og þróttleysið sem fylgir því oft að stíga inn í hvern dag. Það er samt alveg ótrúlegt hvernig síðustu dagar hafa verið eftir að ég fékk loksins vinnu. Ég er búin að hugsa á hverjum einasta degi hvað mig langar til þess að segja þér og gleðjast með þér yfir þeirri staðreynd að ég, já ég, er að vakna klukkan sex á morgnanna og mæta til vinnu klukkan 7 og er ekki að drepast úr þreytu. Ert þú eitthvað að hjálpa til þarna eða? Ég er steinhissa á þessu en þetta er búið að vera mikil bót fyrir mig þar sem að þreyta er alveg hrikalega slítandi og þreytandi. Hlutirnir eru samt ekki eins innilega góðir þegar ég get ekki deilt þeim með þér. 

Ég elska þig ástin mín, þú ert alltaf í huga mínum.