miðvikudagur, 18. október 2017

Hugurinn reikar ætíð til þín

Það er bara þannig. Það þarf ekki margt að gerast til þess að þú sért komin fremst í huga mér. Misjöfn eru samt viðbrögðin við því að hafa þig svona ofarlega í huga mér. Í dag er ég viðkvæm, ég veit svosem ekki afhverju, en um leið og ég hugsaði til þín að þá fylltust augun mín.
Ég er að fara halda afmæli Andreu Óskar á sunnudaginn og ó hversu heitt ég vildi að þú gætir komið. 4 ár er ég búin að hafa hana hjá mér. 4 ár þýðir að það eru 3 ár síðan þú fórst og það er svo óraunverulegt. 3 virkilega krefjandi ár að baki og ég virðist bara sakna þín meira og meira, það hættir ekkert er það? Það er svo fjarstæðukennt sú tilhugsun að maður venjist söknuðinum því það á ekki að fara saman. En líklegast gert til þess að maður komist nú af..... ég segi nú bara sem betur fer að Andrea Ósk mín kom í heiminn. Þvílík blessun, því ég veit í alvöru ekki hvar ég væri í dag án hennar. Það er nefnilega svo auðvelt að gefast upp en hún minnir mig á það á hverjum degi að það er bara ekki í boði. Mig langar til þess að gefa henni eins gott líf og unnt er, sýna henni að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi (eitthvað sem ég er að reyna temja mér til þess að komast yfir fyrstu önnina í sálfræði) og sjá til þess að henni vegni vel í framtíðinni.

Sárt var það að halda hennar fyrsta afmæli og þú varst á spítalanum. Maður var orðinn svo værukær eitthvað að það virtist fjarstæðukennt það sem koma skyldi en daginn eftir veisluna komu fréttirnar. Þú varst að fara frá mér, frá okkur... það fölnaði allt þá og virtist svo langt í burtu. Ég varð svo hrædd og þú varst svo yfirveguð yfir þessu og reyndir að hughreysta mig - þessi stutta stund okkar saman, bara ég og þú var dýrmæt. Þetta var eina stundin þar sem ég heyrði þig tala í þeim dúr að nú væri komið að endalokum því fljótt eftir þetta að þá virtist þú vera harðákveðin í að þetta væri ekki að fara gerast og að þú ætlaðir að flytja í nýja húsið í Hveragerði. Það reyndi á, manni langaði svo að kveðja þig og segja allt sem lá á hjartanu en þú vildir ekki að neinn talaði í þeim dúr. Þessar rúmlega tvær vikur voru ekki í líkingu við neitt sem ég hafði upplifað og vonandi mun ég aldrei upplifa aftur. Ég held fast í okkar hinstu stund saman mamma mín, ég hefði ekki viljað neitt annað. Okkar hinsta faðmlag mun að eilífu búa í hjartanu mínu. Úff það er svo erfitt að hugsa um þetta allt, mig verkjar í hjartað. Ég elska þig elsku fallega yndislega mamma mín.

Þú verður alltaf í hjartanu mínu.